Loðna

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Mallotus villosus
Danish: lodde
Faroese: lodne
Norwegian: lodde
Swedish: lodda
English: capelin, caplin
German: Lodde
French: capelan, capelan atlantique
Spanish: capelán
Portuguese: capelim
Russian: Мойва / Mójva

Loðna er smár og langvaxinn fiskur, frekar þunnvaxinn, með meðalstóran og frammjóan haus. Kjaftur er allstór og er neðri skoltur dálítið framstæður. Tennur eru smáar en augu stór. Uggar eru vel þroskaðir, einkum hjá hængunum. Bakuggi er einn rétt aftan við miðjan fisk og aftan hans er geislalaus húðsepi, veiðiuggi. Andspænis veiðiugga er raufaruggi og er hann miklu stærri á hængunum en hrygnunum um hrygningartímann. Eyruggar eru stærri á hængum en hrygnum. Kviðuggar eru stórir og andspænis bakugga. Sporðblaðka er stór og sýld. Hreistur er smátt og þunnt. Rák er bein og greinileg. Fyrir og um hrygningartímann lengist hreistrið á hængnum, rís upp og myndar eins konar loðið svæði meðfram rákinni. Nafn loðnunnar er dregið af þessu fyrirbæri. Stærsta loðna sem vitað er um veiddist við Nýfundnaland árið 1 967 og var það 25 cm 10 ára gömul hrygna. Hér við land eru loðnur stærri en 20 cm þó sjaldséðar. Hængar verða stærri en hrygnur.

Litur loðnunnar er margbreytilegur, oft grænleitur að ofan og Ijós a hliðum og að neðan. Um hrygningartímann verða litirnir sterkari og hængarnir dökkna mjög að ofan og fá svarta punkta á hliðar tálknaloka og bæði hængar og hrygnur fá silfurgljáa með rauðblárri slikju á hliðum. Hrygnan er Ijósari á litinn. Ungir fiskar á fyrsta ári eru litlausir og hálfgegnsæir.

Geislar, B: 13-15,- R, 20-24; hryggjarliðir, (67)69-70(72)

Heimkynni loðnunnar eru nyrstu höf jarðarinnar þar sem hún er víða mjög útbreidd. Hún er í Barentshafi, Hvítahafi og Karahafi og austur með norðurströnd Síberíu. Þá er hún við Norður-Noreg, Færeyjar, Ísland, Grænland, norðan Kanada og í Hudsonflóa suður til Labrador, Nýfundnalands og Nýja- Skotlands. Í Norður-Kyrrahafi (Beringshafi og Okotskahafi) var talið að væri önnur tegund, Maliotus catervarius, en nú er talið að um sömu tegund sé að ræða. Loðna er einnig í Beringssundi við Alaska, Vestur-Kanada og austurströnd Síberíu til Kóreu.

Í Norður-Atlantshafi og Barentshafi eru fjórir nokkurn veginn sjálfstæðir loðnustofnar. Þeir eru Barentshafs-Hvítahafs- loðna (meðal-hryggjarliðafjöldi 69,3), Íslandsloðna (69,2), Grænlandsloðna (68,2) og Nýfundnalands-Kanadaloðna (66,5). Kyrrahafsloðnan hefur að meðaltali um 66,4 hryggjarliði. Samgangur a milli þessara stofna er lítill en ekki útilokaður.

Við Ísland finnst loðna allt í kringum landið.

Lífshættir: Loðnan er kaldsjávar- og uppsjávarfiskur sem leitar þó botns á grunnsævi til þess að hrygna. Mestan hluta ævinnar heldur íslenska loðnan sig úti á reginhafi í ætisleit og fer þá allt norður fyrir Jan Mayen og upp undir strendur Austur-Grænlands.

Aðalætissvæði hennar eru þó djúpt undan Norðvestur-, Norður- og Norðausturlandi en aðalhrygningarstöðvarnar eru á grunnsævi við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina loðnan í norðvestanverðu Atlantshafi og í Kyrrahafi hrygnir hins vegar alveg uppi f fjöruborði.

Fæða loðnunnar er ýmiss konar svifdýr eins og krabbaflær, einkum rauðáta og póláta, en einnig Ijósáta, pílormar, fiskaegg og seiði.

Hér við land hrygnir loðnan einkum við suðaustur-, suður-, suðvestur- og vesturströndina, frá Hornafirði og vestur á Breiðafjörð. Nokkur hrygning á sér stað út af Vestfjörðum og við Norður- og Norðausturland en þar hefst hún seinna. Loðnan hrygnir við 4-7°C á Íslandsmiðum (2-6°C við Noreg og Grænland og 5-1 0°C við Nýfundnaland). Hrygning hefst í febrúar en einkum mars og stendur fram í apríl við suður-, suð- vestur- og vesturströndina en á norðursvæðinu hefst hún ekki fyrr en í apríl og maíeða síðar. Um hrygningartímann kemur loðnan í mikilli mergð upp að landinu. Fyrstu göngur koma upp úr mánaðamótum janúar- febrúar upp að suðausturströndinni (stundum jafnvel fyrr) og eru þá fyrstu torfurnar búnar að vera á ferðalagi frá vetrarstöðvum sínum norðvestur og norður af landinu síðan í desember. Um og upp úr áramótum er aðalhrygningargangan oft norður af Melrakkasléttu, undan Austfjörðum í janúar og við Stokksnes í byrjun febrúar. Þegar mikið er um loðnu kemur hver gangan á fætur annarri og eru þær oft í fylgd með fríðu föruneyti, eltar af hvölum, fuglum og fiski sem keppast við að éta loðnuna. Þegar nær dregur hrygningunni gengur loðnan oft mjög nærri landi og stöku sinnum inn í árósa og lón.

Loðnan hrygnir eggjum sínum á sand- og malarbotni á 10-90 m dýpi, mest á 30-50 m, og límast eggin við steina og skeljabrot og liggja oft í mörgum lögum. Eggin eru lítil um I mm í þvermál, rauðgul á lit og fjöldi þeirra er um 8-20 þúsund úr hverri hrygnu eftir stærð hennar. Ýmsir fiskar, eins og t.d. ýsa og þorskur, keppast við að éta loðnuhrognin. Klakið tekur um þrjár vikur og er lirfan um 5 mm við klak. Lirfur og seiði berast með straumi vestur og norður fyrir land og alast þar upp. Einnig berast lirfur og seiði með straumum yfir Dohrnbankasvæðið til Austur-Grænlands.

Athuganir á hrygnandi loðnu í búri í Sædýrasafninu í Vestmannaeyjum sýndu að hrygningarleikir hennar voru mjög fjörugir. Hængar og hrygnur þjóta saman í eins konar faðmlögum um botninn en loðna rákin og stórir, uppbrettir eyr- og kviðuggar gera hængnum unnt að halda hrygnunni upp að sér. Um leið þyrla þau upp sandi og hrognum til allra átta og láta enga fyrirstöðu hafa áhrif á sig. Hrygning hjá hverju pari stendur aðeins yfir í nokkrar sekúndur og ljúka hrygnurnar sér af í einni pörun en hængarnir virðast geta tekið þátt í fleirum.

Að lokinni hrygningu er loðnan útkeyrð og illa farin líkamlega og er talið að hún hrygni aðeins einu sinni og drepist síðan. Eitthvað af hrygnunum kann að lifa af og hrygna tvisvar en hrygningardauði hænganna virðist vera alger a.m.k. hér við land.

Vöxtur loðnunnar er mjög breytilegur eftir kyni og kynþroska. Mjög fáar loðnur hrygna tveggja ára (um 3%) en langflestar eru orðnar þriggja ára. Um fjórðungur hrygnir fjögurra ára en þessi hlutföll eru þó breytileg eftir árgöngum. Íslenska loðnan verður ekki eldri en fjögurra ára. Barentshafsloðnan verður eldri og hrygnir 4-5 ára og loðnan við Vestur-Grænland og Nýfundnaland verður enn eldri.

Óvinir loðnunnar eru margir enda er hún afar mikilvæg fæða fjölmargra dyra á Íslandsmiðum. Hún er elt af hvölum, eins og hnúfubak, hrefnu, langreyði, háhyrningi og hnísu, svo og ýmsum selum og fuglum, eins og ritu, súlu og fleiri að ógleymdum þorski, grálúðu og fleiri lysthafendum. Þá er maðurinn einnig allstórtækur í veiðum á loðnu.

Nytjar: Litlum sogum fer af loðnunytjum fyrr á öldum enda var „loðsilungur" talinn öllum skepnum óætari. Síðar breyttist þetta og farið var að hirða loðnu þegar hana rak á fjörur og nota til skepnufóðurs og í vissum landshlutum, til dæmis í Skaftafellssýslum, til manneldis. I kringum 1900 var farið að nota loðnu til beitu, fyrst norðanlands en síðan fyrir austan og sunnan. Um miðjan sjöunda áratug 20. aldar hófust loðnuveiðar í stórum stíl í herpinót til bræðslu auk þess sem farið var að hirða hrogn og heilfrysta loðnu til útflutnings. Lítils háttar var einnig lagt niður í dósir.

Árin 1964-1974 voru eingöngu stundaðar vetrarveiðar á loðnu hér við land. Fyrsta árið var aflinn 8.600 tonn en árið 1974 var hann kom inn upp í 461.900 tonn. Árið 1975 hófust sumar- og haustveiðar á loðnu.

Árið 1997 var veitt mest úr íslenska loðnustofninum, 1.561.000 tonn. Þar af veiddu ísendingar 775.000 tonn á vetrarvertíð og 536.000 tonn á sumar- og haustvertíð, alls 1.311.000 tonn.

 

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?